Ásta Þórarinsdóttir var skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra sem stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins í síðustu viku. Ásta er menntuð í hagfræði og hefur meistaragráðu í fjárfestingastjórnun frá Cass Business School í London. Stuttu eftir útskrift starfaði hún í bankaeftirliti Seðlabankans og kom þannig að því þegar Fjármálaeftirlitið var stofnað. Þar var hún til ársins 2003 þegar hún tók sér ársleyfi til að gerast bæjarritari í Kópavogsbæ í bæjarstjórnartíð Sigurðar Geirdals.

„Ég var beðin um það þegar þáverandi bæjarritari þurfti leyfi til að fara í nám í ár. Ég var búin að vera lengi í bankaeftirlitinu og svo Fjármálaeftirlitinu og fannst þetta ágætis tækifæri til að horfa upp úr eftirlitsbransanum,“ segir Ásta. „Ég er rosalega mikill Kópavogsbúi og fannst þetta frábært tækifæri til að kynnast bænum. Ég var náttúrulega alveg í hringiðunni og fannst þetta mjög skemmtilegt.“