Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Rosamosa skrifaði í dag undir samning við bresku leikfangaverslunina Hamlays um samkomulag um þróun og dreifingu á tónlistarnámskeiðum og annarra afurða sem byggja röð tónlistarleikja sem Rosamosi gefur út undir vörumerkinu Mussila. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rosamosa.

Í samkomulaginu við Hamleys er fólgið mikilvægt tækifæri fyrir Rosamosa til þess að efla vörumerkið Mussila á alþjóðavísu en fyrirtækið hefur haft það að markmiði frá upphafi að bjóða upp á lausnir sem auka aðgengi barna að tónlistarmenntun og nýta til þess nútímatækni, leikjamódelið, ævintýri og skapandi leik.

Í tilkynningunni segir að Hamleys sé elsta og stærsta leikfangaverslun í heiminum og eitt þekktasta vörumerki á sviði leikfanga. Á undanförnum árum hefur Hamley’s verslunum fjölgað verulega og í dag eru reknar á annað hundrað Hamleys verslanir víða um heim.

Á næstu misserum hyggur Hamleys á enn frekari landvinninga þar sem ýmsar nýjungar munu líta dagsins ljós. Meðal annars er í þróun svokallað “Hamleys Playroom” innan verslananna þar sem boðið verður upp á skemmtileg og fræðandi námskeið fyrir börn og snýr samkomulagið að því að Rosamosa muni bjóða upp á tónlistarnámskeið í verslununum sem verða byggð á vörumerkinu Mussila en Rosamosi gaf á dögunum út sinn fjórða Mussila leik í röð tónlistarleikja fyrir börn.

Fyrirtækið Rosamosi var stofnað árið 2015 af tónlistarkonunni Margréti Júlíönu Sigurðardóttur og tölvuverkfræðingnum Hilmari Þór Birgissyni með það að markmiði að þróa línu tónlistarleikja fyrir börn þar sem nýjasta tækni í bland við ævintýri og skapandi leik myndu nýtast til þess að gera tónlistarmenntun aðgengilegri fyrir börn.