*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Fólk 26. maí 2018 18:11

Rosamosi ræður Jón Gunnar

Jón Gunnar Þórðarson er nýr markaðsstjóri Rosamosa ehf. sem framleiðir leiki til að kenna börnum tónlist.

Ritstjórn
Jón Gunnar Þórðarson er nýr markaðsstjóri Rosamosa ehf.
Aðsend mynd

Tölvuleikjafyrirtækið Rosamosi ehf. hefur ráðið Jón Gunnar Þórðarson sem markaðsstjóra fyrirtækisins og bíða hans fjölbreytt og krefjandi verkefni við stefnumótun og markaðssókn á erlendum markaði að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Jón Gunnar útskrifast nú í júní með alþjóðlega MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík en áður lauk hann BA gráðu í leikstjórn frá Drama Center í London. Hann hefur leikstýrt yfir 40 leiksýningum og verið verkefnastjóri fjölmargra viðburða.

Um Rosamosa

Fyrirtækið Rosamosi var stofnað árið 2015 af tónlistarkonunni Margréti Júlíönu Sigurðardóttur og tölvuverkfræðingnum Hilmari Þór Birgissyni með það að markmiði að þróa tölvuleiki fyrir börn þar sem leikjamódelið, ævintýri og skapandi leikur yrðu nýtt til þess að kenna börnum grunnatriði í tónlist á aðgengilegan og skemmtilegan hátt.

Nýjasti leikurinn úr smiðju Rosamosa og sá fimmti í samnefndri röð kallast Mussila og hefur hann hlotið mjög góðar viðtökur gagnrýnenda og notenda sem telja nú hátt á annað hundrað þúsund.

Þá hefur App Store vakið sérstaka athygli á leiknum en undanfarnar vikur hefur Mussila náð í fyrsta sæti í sínum flokki í 17 löndum og á topp tíu í flokki allra barnaleikja í 22 löndum þar sem Mussila keppir við leiki frá stórfyrirtækjum á borð við Disney og Lego.

Ráðning Jóns Gunnars kemur inn á góðum og mikilvægum tímapunkti fyrir Rosamosa ehf. en fyrirtækið stendur nú mikilvægum tímamótum segir jafnframt í tilkynningunni.

Ákveðnu tilraunaskeiði þar sem fyrirtækið var að fóta sig á markaði er að ljúka og er nú stefnt á nýja landvinninga þar sem ætlunin er að útfæra vörumerkið Mussila út fyrir heim snjalltækjanna. Inn í þá vinnu er reynsla og menntun Jóns Gunnars dýrmæt og mikilvæg viðbót við teymið.