Viðbrögð markaðarins við uppgjör Mosaic Fashions það sem af er degi hafa verið jákvæð og hafa bréf félagsins hækkað um 5,89%. Samkvæmt áliti Greiningar Íslandsbanka sýndi uppgjörið að góður vöxtur er í starfseminni og var afkoman áberandi betri en á fyrsta ársfjórðungi. Þá sést í uppgjörinu hvernig efnahagurinn er uppbyggður eftir hlutafjárútboð og endurfjármögnun skulda.

"Reksturinn á fjórðungnum gekk betur en við gerðum ráð fyrir í afkomuspá, rekstrartekjur voru 105,6 m. punda (spá 95,0) og EBITDA var 16,1 m. punda (spá 13,0) sem samsvarar 15,2% af veltu. Fjármagnskostnaður var hins vegar meiri en gert var ráð fyrir í spánni en þar kemur til kostnaður við uppgreiðslu eldri lána (millilagslána) og útgáfu skuldabréfa á íslenska markaðinum. Því er hagnaður tímabilsins (2,1 m. punda) heldur lægri en spáð var (2,6 m. punda)," sagði í Morgunkorni Íslandsbanka.

Stjórnendur segja þriðja ársfjórðung fara vel af stað og halda áætlun ársins óbreyttri (rekstrartekjur 418 m. punda og EBITDA 59 m. punda). Reiknað er með að opna álíka margar verslanir og deildir í deildarverslunum á seinni hluta ársins og á þeim fyrri. Samtals eru það um 90 eigin verslanir og sérleyfisverslanir og er samstarfsverkefni í Kína þá meðtalið.

Íslandsbanki hefur boðað betri greiningu seinna í dag.