Roskilde Bank hefur fengið neyðaraðstoð til fjármögnunar eins og fjallað hefur verið um. Danski seðlabankinn, Nationalbanken, mun tryggja „ótakmarkaðan aðgang að fjármagni“ samkvæmt frétt Bloomberg.

Samtök danskra banka bera svo ábyrgð á tapi upp á allt að 750 milljónum danskra króna (um 12 milljarðar íslenskra króna) af því fjármagni, og viðskiptavinir bankans ættu ekki að tapa sínum peningum. Selja á bankann og hefur Nordea bankinn verið nefndur til sögunnar sem hugsanlegur kaupandi. Handelsbanken segjast einnig opnir fyrir viðræðum um kaup.

Roskilde Bank segir miklar afskriftir vera í vændum og vinnur nú að því að finna kaupendur að bankanum, en framkvæmdastjóri bankans, Søren Kaare-Andersen, segir ákveðna aðila hafa áhuga á að kaupa bankann en vill ekki láta uppi hverjir það eru. „Það hafa viðræður átt sér stað, en ég vil ekki segja við hvern,“ hefur Børsen eftir Kaare-Andersen.

Nordea bankinn hefur þó sagst ætla að skoða hugsanleg kaup á Roskilde Bank, og Handelsbanken segist opinn fyrir viðræðum.