Roskilde Bank hefur verið atkvæðamikill í útlánum til fasteignageirans í Danmörku, og hagnaðist bankinn vel á þeirri starfsemi framan af áratuginum.

Eftir að halla fór undan fæti á dönskum fasteignamarkaði hefur hins vegar þessi áhersla bankans á húsnæðismarkað reynst honum þung í skauti, enda hafa ýmis fasteigna- og byggingafyrirtæki í Danmörku lagt upp laupana undanfarið.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en eins og fram kom hér á vb.is í morgun hröpuðu hlutabréf í bankanum um helming við opnun markaða í morgun.

Spáð er u.þ.b. 10% lækkun fasteignaverðs í landinu á þessu ári og öðru eins á hinu næsta.