Fundur hófst hjá Ríkissáttasemjara í dag klukkan 13:00 milli Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, en boðað hefur verið til ótímabundins verkfalls flugvirkja hjá Icelandair klukkan 06:00 á sunnudagsmorgninum 17. desember.

Samningar flugvirkja við Icelandair hafa verið lausir síðan 31. ágúst síðastliðinn en Óskar Einarsson formaður Flugvirkjafélagsins segir ekkert hafa þokast í viðræðum félaganna síðan viðræður hófust undir lok júlímánaðar að því er Fréttablaðið greinir frá.

„Samningar voru lausir 31. ágúst og við höfum bara ekki náð neinum árangri í samningaviðræðum,“ segir Óskar.

„Það munar þó nokkru því að við teljum okkur eiga inni launaleiðréttingu sem er búið að fara þó nokkur vinna í að finna út úr. Við höfum svo sem unnið það í samvinnu við okkar viðsemjendur og höfum komist að ákveðinni lausn í því máli og þar stendur það í dag.“