„Að sjálfsögðu myndi Magma vilja eiga stærri hlut í HS Orku,“ segir Ross Beaty, forstjóri og stjórnarformaður Magma Energy Corp. Fyrirtækið á sem stendur um 41 prósent hlut í HS Orku og á rétt á kaupum á um tveimur prósentum til viðbótar.

Ross segir að þó að Magma muni ekki hreyfa sig mikið í átt að stærri eignarhlut fyrr en afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart fjárfestingu fyrirtækisins breytist, en ríkisstjórn Íslands brást harkalega við síðasta sumar þegar Magma jók við fjárfestingu sína í HS Orku.

Undir forystu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra var sett í gang ferli til að tryggja að meirihluti fyrirtækisins héldist í opinberri eigu. Beaty segist ekkert hafa heyrt af þeim þreifingum síðustu mánuði. „Magma hefur mikinn áhuga á að byggja HS Orku upp til langframa sem stórt og gott fyrirtæki. Við verðum samt að vinna í því pólitíska umhverfi sem er við lýði á Íslandi. Margt hefur breyst frá síðasta sumri. Ég vona að pólitíska umhverfið hafi breyst líka þannig að ríkisstjórnin sé raunsærri en hún var fyrir hálfu ári. Ég vona að hún líti á málið frá praktískum sjónarhóli frekar en eingöngu hugmyndafræðilegum.Við verðum að gera það sem við gerum hérna þannig að íbúar Íslands séu sáttir við það. Við viljum endilega auka hlut okkar í HS Orku. En við verðum að fá félagslegt og pólitískt umboð til að gera það. Ef það leyfi fæst þá höfum við klára fjárhagslega burði í stórar fjárfestingar á Íslandi,“ segir Beaty.