Þrotabú Baugs fær í sínar hendur tæpar 2,5 milljón punda eða um 500 milljónir króna vegna sölu á tveimur íbúðum í London. Royal Bank of Scotland átti veð í þessum fasteignum og hefur nú selt þær. Þegar búið var að greiða upp veðið stóðu eftir 2,5 milljón punda sem renna til þrotabúsins.

Erlendur Gíslason hrl. og skiptastjóri staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið. Umræddar íbúðir voru nýttar af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs, og öðrum stjórnendum félagsins.

Voru í sölumeðferð fyrir gjaldþrotið

Royal Bank of Scotland setti tilsjónarmann yfir þessar eignir og þær voru komnar í sölumeðferð áður en Baugur Group varð gjaldþrota. Eftir því sem komist verður næst keyptu asískir fjárfestar eignirnar.

Að sögn Erlends kemur sér vel að fá þessar eignir í búið þar sem eignastaða þess er ekki sterk.

Erlendur sagði aðspurður að búið hefði ekki farið í nein riftunarmál erlendis.