Á vegum þrotabús Baugs hefur verið unnið að því að koma eignum félagsins erlendis í verð. Að sögn skiptastjórans Erlends Gíslasonar hrl. hafa eignarhlutar í litlum félögum verið seldir en stóru fjárfestingarnar eru flestar inni í BG Holding sem Landsbankinn heldur nú utan um en félagið er í greiðslustöðvun.

Undir búið falla hins vegar minni fjárfestingar í tískuverslunum og skartgripaverslunum. Skiptastjóri hefur nú þegar selt fjórar eignir. Þegar Erlendur var spurður um afrakstur sölunnar sagði hann að fjárfesting Baugs hefði ekki skilað sér enda væru markaðirnir erfiðir. Erlendur tók fram að búið hefði forðast það að selja á „brunaútsölu“ og sæti enn á vænlegustu bitunum.

Stærsta eignin er í Matthew Williamson

Stærsta eign félagsins er ríflega fjórðungshlutur í hönnunarfélaginu Matthew Williamson sem Erlendur sagði að væri að gera áhugaverða hluti sem gætu viðhaldið og aukið verðmæti hlutarins. Að sögn Erlends er unnið að því að finna áhugasama fjárfesta en hann tók fram að ekki lægi á með sölu félagsins.

Mikið af fjárfestingum Baugs er í fyrirtækjum sem eru illa sett enda var oftar en ekki um að ræða sprotafjárfestingar. Meðal vörumerkja þar er PPQ sem er lítið fyrirtæki utan um tvo hönnuði. Fleiri fjárfestingar voru af líkum toga.

Utan um þessar fjárfestingar var haldið í félagi sem heitir BG Ventures ehf. sem var dótturfélag Baugs sem hélt utan um áhættufjárfestingar. Undir það félag féllu átta fyrirtæki, þar af eitt íslenskt sem var utan um hönnun Steinunnar Sigurðardóttur. BG Ventures var ekki skuldsett félag en fjármagn hafði runnið inn í hlutafélögin, meðal annars í gegnum hluthafalán og hlutafé. Það fjármagn kom frá Baugi.

Að sögn Erlends er rekstur þessara félaga ekki að falla á þrotabúið en mörg þeirra eru vanfjármögnuð. Hann sagði að stefnan væri að losna út úr þeim fremur en að reyna að verja eignir með því að setja inn fjármagn. ,,Við höfum takmarkaðar heimildir til að setja fjármagn inn í félögin til að verja kröfur. Við stöndum ekki frammi fyrir slíkri ákvarðannatöku á þessari stundu og höfum ekki gert það fram að þessu,“ sagði Erlendur.

Félögin Wistlers og Allsaints voru veðsett íslensku bönkunum og því kemur ekkert af verðmæti þeirra undir búið. Bankarnir leystu þau til sín skömmu fyrir gjaldþrot.