Þrotabú Insolidum ehf., hefur verið dæmt til að greiða Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., tæplega 300 milljónir króna auk dráttarvaxta. Insolidum hóf málið til að fá riftun á kaupsamningi við Saga um 47.500.000 stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Áður höfðu fallið úrskurðir um formhlið málsins en þetta er fyrsti efnisdómur þess.

Um leið var eigendum Insolidum, Dögg Pálsdóttur og Páll Ágúst Ólafssyni, gert að greiða óskipt Saga Capital 2.800.000 krónur í málskostnað en málið var rekið á þeirra ábyrgð og kostnað þar sem Insolidum er nú í gjaldþrotameðferð.

Upphaf málsins má rekja til þess að Páll Ágúst, þá framkvæmdastjóri Insolidum og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóra Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., gerðu samning 20. júlí 2007 um að Insolidum ehf. keypti af Saga Capital stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að nafnverði 47.500.000 krónur á genginu 11,797232. Kaupverðið nam því 560.368.520 krónum.

Ekki var gerður skriflegur kaupsamningur um viðskiptin en ekki er um það deilt að samningur komst á með aðilum umræddan dag og að viðsemjandi gagnvart Saga Capital og kaupandi stofnfjárbréfanna var Insolidum ehf. Um leið var fastmælum bundið að aðalstefndi fjármagnaði viðskiptin með láni til Insolidum ehf.

Krafa um riftun á kaupsamningi Insolidum ehf. og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf.,  var einkum á því reist að stofnfjárbréfin hafi í reynd ekki staðið undir því kaupverði sem um var samið, og hafi aðalstefnda verið það ljóst. Vegna tengsla aðalstefnda við fyrrverandi eiganda stofnfjárhlutanna hafi hann búið yfir innherjaupplýsingum um verðmæti hlutanna og hafi aðalstefndi hagnýtt sé þær upplýsingar með ólögmætum hætti og beitt aðalstefnendur blekkingum til þess að koma viðskiptum á. Af þessum sökum hafi hið selda verið haldið slíkum göllum að riftun varði. Dómurinn félst ekki á það.