Ábyrgðasjóður launa þurfti að greiða 24 milljónir króna vegna þrotabús Móa ehf. Í skýrslu sinni fyrir Vinnumálastofnun gagnrýnir Harri Ormarsson lögfræðingur það hve lengi fjárvana rekstri er haldið gangandi og þannig mynduð launaskuld sem óhjákvæmilega falli á Ábyrgðarsjóðinn. Þrotabú kjúklingabúsins Móa var eitt slíkra þrotabúa.

Í þrotabúi Móa ehf. voru búskröfur að myndast á löngum tíma vegna þess að fyrirtækið var í greiðslustöðvun í ca. 11 mánuði (þ.e. greiðslustöðvun í des 2002 og gjaldþrotaúrskurður í nóvember 2003 ). Þetta er óvenjulega langur tími, en Ábyrgðarsjóður greiddi ríflega 24 milljónir króna vegna launa og lífeyrissjóðskrafna í því tilviki.

"Vakna hér óneitanlega spurningar um ábyrgð bankana í tilfellum sem þessum, þar sem þeir eru með púlsinn á fyrirtækjunum frá degi til dags og hafa oft á tíðum í hendi sér hvað er greitt og hvað ekki. Veltu sumir af þeim sem rætt var við hvort ekki væri orðið tímabært að skoða hlut þeirra og auka ábyrgðarhlutverk," segir Harri í skýrslu sinni.