Engin smápeð munu hittast við stjórnarborðið hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Rockefeller Financial Services á næstunni nema náttúran grípi í taumana. Félagið RIT Capital Partners, sem er stýrt af Jacob Rothschild, hefur nefnilega 37% hlut í fyrrnefnda félaginu og fær hann sæti í stjórn. Þar situr fyrir David Rockefeller.

Jacob Rothschild er 76 ára og kominn af einhverri þekktustu banka- og fjármálafjölskyldu í heimi. Hún á rætur að rekja til forföðursins Mayer Amscheld Rothschild sem fjármagnaði stríðsrekstur Breta á tímum frönsku byltingarinnar og fjármagnaði veldi Napóleons í byrjun 19. aldar.

Rockefeller er tuttugu árum eldri en Rothschild og er hann síðasta eftirlifandi barnabarn bandaríska olíujöfursins John D. Rockefeller.

Þeir eru báðir stjórnarformenn félaganna.

Báðir byggja þeir því á gömlum grunni og sjá eðlilega hag í því að snúa bökum saman í Rockefeller Financial Services. Fyrirtækið var stofnað árið 1882 og er í dag með 34 milljarða dala í stýringu.