Viðskiptahindranirnar sem Rússar settu á Tyrkland í kjölfar þess að Tyrkir skutu niður rússneska herflugvél sem tók þátt í átökunum í Sýrlandi fyrir 16 mánuðum eru farnar að bitna tilfinnanlega á tyrkneskum bændum.

„Við lifum ekki af án rússneska markaðarins,“ segir Munir Sen í frétt Bloomberg um málið, en hann fer fyrir kaupmönnum sem versla með ávexti og grænmeti í borginni Mersin í suðurhluta Tyrklands, en þar er stærsta höfn landsins.

„Við höfum aldrei séð jafnhátt hlutfall eyðileggjast.“

Banni á ferðamenn þegar aflétt

Tilraunir Erdogan til að ná sáttum við Pútín Rússlandsforseta hafa dugað til þess að hörðustu refsiaðgerðunum hefur þegar verið aflétt, það er á ferðamannaiðnaðinn í landinu.

En Pútín neitar að gefa eftir í innflutningsbanninu á tómötum, en Rússland hefur tekið við um 70% af öllum tómötum framleiddum í Tyrklandi.

Hefur áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna 16. apríl

Verðmæti markaðarins í Rússlandi nemur um 250 milljónum Bandaríkjadala fyrir tyrkneska bændur. Erdogan hefur nýtt sér málið í kosningabaráttu sinni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 16. apríl um að gera forsetaembættið valdamest í stjórnskipun landsins.

Tyrkland hefur á sama tíma lokað fyrir kaup á hveiti frá Rússlandi, en Erdogan kom nánast tómhentur úr för sinni til Moskvu þar sem hann reyndi að fá banninu aflétt. Eina sem hann fékk út úr þeirri för var afnám banns við nokkrum afurðum sem seljast í mun minna mæli en tómatar.

Markmið Pútín að Rússar verði sjálfum sér nógt

Alexander Shumilin, yfirmaður miðausturlandamiðstöðvarinnar í Moskvu segja bannið á landbúnaðarafurðum þjóna tvöföldum tilgangi fyrir Pútín.

Annars vegar sem tæki til að geta ýtt við Erdogan, en forsetarnir hafa mjög mismunandi afstöðu til valdhafa í Sýrlandi, sem og til að ýta undir stefnu stjórnvalda í Rússlandi um að gera landið sjálfum sér nógt í flestri framleiðslu.