Alþingiskosningar fara fram næstkomandi laugardag og aðspurður segir Ásgeir íslensk stjórnmál vera ólík því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum. Hér sé kerfinu gjarna umbylt á milli kjörtímabila.

„Almennt séð er pólitíkin á Íslandi mun rásgjarnari en á hinum Norðurlöndunum því það er eins og allt efnahagslífið sé sett að veði fyrir hverjar kosningar.

Við sjáum gjarnan mjög róttæk loforð skjóta upp kollinum þar sem gera þarf hitt og þetta og umbylta öllu, sem er öfugt við Skandinavíu þar sem flest stór mál eru sett í faglega ferla sem rofna ekki við kosningar og haldið er áfram af nýrri ríkisstjórn.

Það er ekki farið í kosningar með þennan loforðaflaum líkt og tíðkast hér. En blessunarlega séð að þá gleymast kosningaloforðin yfirleitt eftir að talið er upp úr kjörkössunum.

Ég hef heyrt þá skýringu á þessu að Danir hafi svo lengi haldið öllum þráðum við stjórn landsins hjá sér og þéttbýlismyndun var svo lengi af stað þannig að pólitíska kerfið óx upp á undan stjórnsýslunni.

Þess vegna séu allir stefnuferlar á Íslandi svo pólitískir og lausir í reipunum – þó það hafi aðeins verið að breytast.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.