Ný kynslóð lýðræðissinna unnu sæti í löggjafarráði Hong Kong í kosningum í héraðinu. Kosningaþátttakan náði methæðum, eða 58%.

Meðal þeirra sem hlutu kosningu var Nathan Law, 23 ára gamall sem var einn helsti leiðtogi regnhlífarmótmælanna svokölluðu árið 2014, sem vildu aukna sjálfsstjórn héraðsins.

Áfram meirihluti hlynntur kínverskum stjórnvöldum

Þrátt fyrir mikinn stuðning við lýðræðissinna munu þeir sem hallast að stjórnvöldum í Kína áfram ráða yfir meirihluta í 70 manna ráðinu. Law sagði að niðurstöðurnar, sem hann bjóst ekki við, sýndu að fólk vildi breytingar.

Kosningarnar eru þær fyrstu síðan 2014, þegar miðbærinn í Hong Kong var lamaður vegna mótmæla sem stóðu vikum saman.

Kröfðust mótmælendur aukins lýðræðis í héraðinu vegna aukinna áhyggna yfir því að stjórnvöld í Kína væru að skipta sér sífellt meira að stjórnmálum þessarar fyrrum bresku nýlendu, og væru þeir þannig að brjóta samkomulagið við Breta um „eitt land, tvö kerfi.“

Sundruð stjórnarandstaða

„Ég held að íbúar Hong Kong vilji raunverulegar breytingar,“ sagði Law við AFP fréttastofuna. „Ungt fólk telur brýnt að horfa til framtíðar.“ Law og flokkur hans Demosisto, fékk næst flest atkvæði í hans kjördæmi. Einnig horfði til þess að tveir frambjóðendur Youngspiration flokksins, sem er jafnvel enn opinskárri sjálfstæðisbaráttuflokkur, hlytu kosningu í ráðið.

Á sama tíma misstu þónokkrir baráttumenn fyrir auknu lýðræði sæti sín í ráðinu. „Fólk vill breytingar, breytingar þýðir að það vill sjá ný andlit, en það er á kostnað þess að að lýðræðissinnar eru enn sundraðri,“ sagði Lee Cheuk-yan sem hélt ekki sæti sínu eftir kosningarnar.

Geta beitt neitunarvaldi

Í kjölfar kosninganna fengu lýðræðissinnarnir og bandamenn þeirra, um þriðjung sæta í ráðinu, sem þýðir að þeir hafa kost á því að beita neitunarvaldi á meiriháttar stjórnarskrárbreytingar.

Jafnframt er búist við að róttækari raddir muni heyrast fyrir aukinni sjálfsstjórn með kosningu að minnsta kosti sex ungra baráttumanna í ráðið.

6% íbúa ráða 43% sæta

Ráðið stýrir lögum og fjárlögum í héraðinu, en af 70 manns í því er einungis kosið beint um 35 sæti af þeim 3,8 milljón manns sem búa í því. Önnur 30 sæti eru fyrir fulltrúa ákveðinna stétta og atvinnugreina, og geta einungis þeir sem starfa í þeim geirum kosið um þau sæti.

Þeir sem hafa rétt á að kjósa í þau sæti eru einungis 6% íbúanna og hallast þeir flestir í átt að stuðningi við stjórnvöld í Beijing. Að auki eru 5 sæti kosin beint af öllum íbúum héraðsins. Ráðið kýs ekki framkvæmdastjórn fyrir héraðið, en úrslitin geta haft áhrif á hvort stjórnvöld í Kína muni styðja við núverandi leiðtoga þess, CY Leung í áframhaldandi setu.