Jón Sigurðsson sem tók í gær við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir í viðtali í Viðskiptablaðini í dag að róttækra aðgerða sé þörf sem allra fyrst til að ná aftur jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

"Það er alveg ljóst að á næstu mánuðum verður hér veruleg þensla og verðbólga. Þeirri þróun snúum við ekki við með marktækum og greinilegum hætti á fáum vikum. Það sem við hins vegar verðum að gera þegar í stað, eða sem allra fyrst, er að stíga tiltölulega róttæk skref til þess að straumarnir í hagkerfinu fari að breyta um stefnu," segir jón meðal annars í viðtalinu.

Jón útilokar ekki að hann sækist eftir formennsku í Framsóknarflokknum á flokksþingi í haust. "Þegar ég fer af þessum stóli [Seðlabankastjóra], til þess að fara til annarra verkefna, þá hlýtur það að fylgja með að tek ég að mér öll þau verkefni sem mér verða falin. Á flokksþinginu eru allir í kjöri, ég eins og aðrir þá. Ég mun hins vegar segja framsóknarmönnum fyrst frá því hvað ég ætla að gera. Ég hef ekki áhuga á því að stympast við annað fólk, eða ryðjast um og ýta öðru fólki til hliðar. Mér þykir eðlilegt að frjálsar kosningar eigi sér stað í lifandi félögum."

(Meira í Viðskiptablaðinu í dag)