Verð á hrávörum hefur almennt hækkað mikið frá áramótum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu IFS Greiningar um hrávörumarkaði. Í skýrslunni segir að S&P Goldman vísitalan hafi hækkað um fjórðung á þessu ári.

Í skýrslunni segir að verðhækkunin sé vegna væntinga um betri tíð á næstu misserum fremur en að eftirspurn hafi aukist.

Olíubirgðir í Bandaríkjujnum eru sagðar miklar  og nýlegar tölur þar um hafi valdið lækkun olíuverðs. Álbirgðir séu einnig miklar, en verðið sé samt hátt. Þetta bendi til að neysla og fjárfesting sé enn takmörkuð í helstu hagkerfum. IFS Greining telur vel hugsanlegt að olíu- og álverð og almennt hrávöruverð muni lækka á næstunni. Líklegt sé að verðið stjórnist af hagvísum sem berist. Mestu skipti hvernig eftirspurnarhliðin þróist, þ.e. einkaneysla og fjárfesting fyrirtækja.