Reykjavíkurborg hefur fyrir hönd Íþrótta- og tómstundaráðs auglýst eftir umsóknum áhugasamra aðila um þátttöku í þróunarverkefni um vatnagarð í Úlfarsárdal, ásamt því að koma að fjármögnun, framkvæmdum og rekstri viðkomandi mannvirkja. Í vatnagarðinum er gert ráð fyrir almenningssundlaug, aðstöðu til leikja fyrir börn og unglinga og vettvangi fyrir fjölskyldur til að dvelja saman í vatnagarði sem verður að hluta til yfirbyggður. Þar verður hægt að hvíla sig og slappa af eða taka þátt í hamaganginum. Einnig verður þar aðstaða fyrir skólasund, sund eldri borgara og ungbarnasund.


Björn Ingi Hrafnsson er formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að hugmyndin hafi orðið til og verið kynnt fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. "Það má segja að hugmyndin sé framhald af því að Íslendingar hafi haft forystu um uppbyggingu áhugaverðra sundlaugarstaða með því að nýta allt heita vatnið sem við höfum aðgang að. Íslendingar sem fara til útlanda upplifa það að fara í svona vatnagarða með öldugangi og rennibrautum og margir hafa furðað sig á því af hverju slíkt sé ekki hægt að byggja hérlendis. Við erum með allt þetta heita vatn. Nú erum við að óska eftir hugmyndum frá einkaaðilum til að koma að þessu verkefni, til dæmis með byggingu hótels eða annarrar þjónustu í kringum þetta," segir Björn Ingi. Hann segir að borgin sé opin fyrir öllum hugmyndum en þetta er hugsað sem einkaframkvæmd með þjónustusamningi við borgina, þar sem þarna verður margvísleg þjónusta í boði.


Forval fyrir þessa framkvæmd hefur þegar verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og eru skil á umsóknum áhugasamra aðila 27. ágúst næstkomandi.