Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru farnir að bíta meira nú en nokkru sinni fyrr. Í ljósi þess að fyrirtækin hafa ekki lengur aðgang að hagstæðum erlendum lánum búa þau við innlend vaxtakjör sem enginn atvinnurekstur stendur undir til lengdar. Því er ljóst að róðurinn er orðinn þungur og mun þyngjast enn frekar verði ekkert að gert. Og þá mun ástandið ekki bara bitna á fyrirtækjunum heldur líka í auknum mæli á fólkinu í landinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í máli viðmælenda Viðskiptablaðsins.

Samkvæmt nýjustu stýrivaxtaspá Seðlabankans byrja stýrivextir ekki að lækka fyrr en í fyrsta lagi á fyrsta ársjórðungi næsta árs. Ef marka má viðmælendur blaðsins kann það að verða of seint fyrir sum fyrirtæki í landinu. Lánakjör eru breytileg eftir rekstri, stærð og fjárhagslegum styrk fyrirtækja. Viðmælendur blaðsins segja þó kjörin vera farin að nálgast ískyggilega dráttarvaxtakjör sem eru í kringum 26%.

„15,5% stýrivextir eru merki frá Seðlabankanum um það að hann telji að beita þurfi markaðinn ofbeldi til að ná honum niður,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, og heldur áfram: „Þessir háu vextir eru merki um að bankinn sé að kljást við gríðarlega mikla þenslu, en sú verðbólga [sem drifin er áfram af aukinni eftirspurn] er ekki fyrir hendi lengur. Seðlabankinn er að kljást við innflutningsverðbólgu og orkuverðbólgu – vextirnir bíta á hvorugt.“

Hann bendir á í þessu sambandi, að þenslan sé í hraðri rénun hvert sem litið er: Fasteignaverð sé á niðurleið, sem og bílasala og greiðslukortavelta.

Smærri byggingaraðilar lifa ekki vaxtastigið af

Þorsteinn segir að ekki þurfi að velta mikið vöngum yfir framhaldinu haldist ástandið óbreytt næstu mánuði: Fjöldi smærri byggingaraðila muni ekki lifa vaxtastigið af. „Það þýðir að bankarnir verða orðnir æ stærri húsbyggjendur í vetur fari vaxtastigið ekki að lækka. Ég hef hins vegar ekki trú á því að vaxtastig Seðlabankans verði óbreytt að sex mánuðum liðnum. Það eru allar forsendur til staðar fyrir vaxtalækkun nú og bankinn hlýtur að fara að bregðast við með lækkunum."

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .