Royal Bank of Scotland tilkynnti í morgun að bankinn hefði afskrifað 5,9 milljarða punda og myndi styrkja efnahagsreikning sinn. Hann hefur beðið hluthafa að samþykkja 12 milljarða punda útgáfu nýs hlutafjár og hyggst selja eignir sem ekki teljast til kjarnaeigna, að því er fram kemur í frétt frá Wall Street Journal.

Útgáfan, sem Goldman Sachs, Merrill Lynch og UBS sjá um, bætir bankanum upp hluta af því fjármagni sem hann hefur misst í kjölfarið á 10 milljarða punda yfirtöku hans á ABN Amro Holding í fyrra. Þá hafa ýmis verðbréf í eigu bankans einnig fallið í verði að undanförnu.