Breski bankinn Royal Bank of Scotland tapaði 24,1 milljarði punda á síðasta ári sem er stærsta tap bresk fyrirtækis frá upphafi að sögn The Daily Telegraph fyrra met var 14,9 milljarðar punda.

Hér er miðað við tap eftir skatta og fjármagnsliði en brúttó tapið nemur um 40 milljörðum Sterlingspunda

Bankinn hagnaðist um 9,8 milljarða punda árið 2007 og því er viðsnúningurinn töluverður. Afskriftir bankans á síðasta ári námu um 32,6 milljörðum punda.

Royal Bank of Scotland er nú í 70% eigu breska ríkisins en yfirvöld hafa þegar bankanum til 20 milljarða punda af opinberu fé. Þá mun ríkið einnig yfir taka svokölluð eitruð veð fyrir 325 milljarða en bankinn sjálfur verður aðeins ábyrgur fyrir um 6% af því fjármagni.

Þá ætlar bankinn að ná rekstrarkostnaði niður um 2,5 milljarða á þessu ári sem þýðir að sögn Telegraph að um 20 þúsund starfsmönnum kann að verða sagt upp.

Það sem hefur hins vegar valdið hvað mestum usla í Bretlandi í dag eru eftirlaun Fred Goodwin, fyrrverandi forstjóra bankans.

BBC greindi frá því í morgun að Goodwin, sem er fimmtugur að aldri, fær laun frá bankanum það sem eftir er ævi sinnir sem nemur um 650 þúsund pundum á ári eða rúmum eitt hundrað milljónum króna.

Að sögn breskra fjölmiðla kenna margir Goodwin um mikið tap breska bankans og eru kaupin á hollenska bankanun ABN í desember 2007 talin vega þar þyngst en bankinn þurfti að afskrifa um 15 milljarða punda vegna kaupanna.