Andrea Björnsdóttir
Andrea Björnsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Royal búðingarnir brugðu út af yfir hálfrar aldar vana sínum í byrjun mánaðarins með því að kynna nýja bragðtegund, saltkaramellu, sem virtist hitta vel í mark, að minnsta hjá bökurum landsins í aðdraganda b olludagsins. Andrea Björnsdóttir markaðsstjóri Lindsay, móðurfélags Agnars Ludwigssonar ehf. sem framleitt hefur búðingana hér á landi í 66 ár með sérleyfi, segir alltaf söluaukningu í febrúar enda bragðbæti margir bolludagsbollurnar með búðingunum.

„Salan á Royal búðingnum tvöfaldast yfirleitt hjá okkur í febrúar því hann er svo vinsæl fylling á bolludaginn, annaðhvort sér eða blandað út í rjómann, sem er mjög vinsælt því þá þarf ekkert að þeyta hann sérstaklega heldur er nóg að hræra þessu saman og leyfa honum að stífna. Í febrúar í ár tæplega þrefaldaðist hins vegar salan miðað við febrúar í fyrra og getum við því sagt að nú í febrúar hafi salan um það bil fimmfaldast miðað við meðalsölu síðustu mánuði," segir Andrea sem segir alla jafna mest seljast af búðingnum á neytendamarkað frekar en í stóreldhús.

„Viðtökurnar á nýja saltkaramellubúðingnum voru framar öllum okkar vonum og þurftu starfsmenn verksmiðjunnar að vinna í margar vikur langt fram eftir kvöldi og allar helgar fram að bolludegi.  Hann stóð einn og sér fyrir 42% af heildarsölunni í febrúar í ár, meðan aukningin af hinum gerðunum var um 40%."

Notkun í bakstur kom á óvart

Andrea segir sölu Royal búðinganna alla jafna mjög stöðuga en hún viðurkennir að það hafi komið félaginu nokkuð á óvart hve notkun búðingsins hafi aukist mikið í ýmiss konar bakstur.

„Við komumst að því fyrir nokkrum árum að fólk var farið að nota Royal búðing á annan hátt en í þennan hefðbundna eftirrétt sem margir muna frá æsku en hefur kannski gleymst að setja á innkaupalistann dags daglega hjá mörgum," segir Andrea.

„Ýmsir snjallir áhugabakarar og matarbloggarar fóru að setja Royal búðingaduftið í kökur sem kemur í veg fyrir að þær verði þurrar í gegn, heldur gerir þær virkilega mjúkar og rakar að innan en stökkar að utan. Við höfum síðan farið að nýta okkur áhrifavalda og bakara til þess að hjálpa okkur búa til uppskriftir, til að mynda í samstarfi við Berglindi Hreiðarsdóttur sem er með gotteri.is, en hún hafði áður algerlega tekið upp á því sjálf að nota Royal duftið þegar hún var að kenna kökubakstur."

Saltlakkrísbragð mögulega næst

Með því að koma með nýja bragðtegund og smá nýsköpun í þetta rótgróna vörumerki hefur okkur tekist að minna vel á það og fleiri og fleiri hafa verið að kaupa ýmsar af eldri gerðunum fimm og smakka þá. Til dæmis er vinsælt að láta börn gera búðinginn og er hann þá oft fyrsti eftirrétturinn sem þau gera sjálf," segir Andrea.

„Við völdum að koma núna fram með saltkaramellu enda vinsæll í prófunum innan húss og þetta bragð núna mikið í tísku, til að mynda er kaka ársins með því. Við ætlum að fara af stað með meiri þróun eftir þessi frábæru viðtökur og vonandi koma með nýja bragðtegund á næsta ári. Ég er sjálf mikill saltlakkrísaðdándi og væri gaman að geta svarað kalli þeirra sem hafa verið að biðja um lakkrísbúðing og svo passar mokkabragð sem við höfum verið að prófa vel með kökum og kremi og fínni eftirréttum. Síðan kemur sítrónubúðingurinn alltaf við og við aftur enda mörgum sem finnst hann sérstaklega góður þó sé ekki allra."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .