Danska ölgerðin Royal Unibrew, sem er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandi Skandinavíu og Fl Group á 24,4% í, hefur ákveðið að hefja bruggun á Heineken bjór í Danmörku, segir í frétt á vefsíðu danska viðskiptablaðsins Børsen.

Þetta er gert til að auka samkeppnina við Carlsberg um bjórsölu í Danmörku. Royal Unibrew hefur haft umboð fyrir Heineken í Danmörku frá árinu 2003 en hefur hingað til einungis séð um innflutning en ekki bruggun á bjórnum.

?Með því að brugga bjórinn sjálfir munum við auka veltuna hjá okkur. Þar með verður það líka kappsatriði fyrir okkur að auka söluna á Heineken í Danmörku,? segir Paul Møller.

Royal Unibrew er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandi á Skandinavíu. Samstæðan samanstendur af fjórum dönskum, tveimur litháenskum, tveimur pólskum og tveimur lettneskun drykkjarvöruframleiðendum. Meðal vörumerkja eru Albani, Faxe, Ceres, Maribo og Thor í Danmörku og Tauras og Kalnapilis í Litháen.

Starfsmenn Royal Unibrew eru um um 2.300 talsins víða um heim, og félagið flytur út framleiðslu sína til um 65 landa.