RR Hótel ehf., sem rekur íbúðahótel við Hverfisgötu 45 undir merkjum Reykjavík Residence Hótel, hefur keypt hús Félags bókagerðarmanna við Hverfisgötu 21 og hyggst breyta því í íbúðahótel. Húsið, sem er við hlið Þjóðleikhússins, var byggt fyrir 100 árum.

Áform eru um að innrétta í húsinu tíu íbúðir á fjórum hæðum; sjö tveggja herbergja og þrjár stúdíóíbúðir. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum verði lokið í febrúar á næsta ári.

Þetta er ekki fyrsta húsið sem RR Hótel kaupa við Hverfisgötuna. Í fyrra keypti félagið Hverfisgötu 45, sem áður hýsti m.a. sendiráð Noregs og Söngskólann í Reykjavík. Húsinu var breytt í 15 íbúða hótel.

Húsið sem senn verður breytt í hótel skipar sess í sögunni. Jón Magnússon, bæjarfógeti og síðar forsætisráðherra,  og kona hans, Þóra Jónsdóttir, fluttu inn í húsið árið 1912 og bjuggu þar í um aldarfjórðung. Þegar Kristján X Danakonungur kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1926 ásamt Alexandrínu drottningu lentu íslensk stjórnvöld í vanda með að finna bústað sem væri gestunum samboðinn og fengu konungshjónin inni hjá forsætisráðherrahjónunum.