Bílaumboðið Ræsir hyggst draga sig út úr allri starfsemi á næstu vikum, en félagið var stofnað árið 1942 og er einna best þekkt fyrir sölu og þjónustu við Mercedes-Benz hér á landi.

Félagið flutti um mitt síðasta ár í nýtt húsnæði að Krókhálsi 11, en á næstu vikum munu bílaumboðin Askja og Kia flytja starfsemi sína þangað og taka yfir aðstöðuna.

Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri Öskju, eina viðurkennda sölu- og þjónustuaðila Mercedes-Benz á Íslandi, segir umboðið leigja húsnæðið af fasteignafélagi, en auk þess hafi það keypt vörubirgðir, verkfæri og annan búnað af Ræsi.

„Starfsemi okkar hefur til þessa verið á tveimur stöðum í bænum en nú getum við sameinast undir einu þaki,“ segir Leifur.