*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 17. október 2019 08:15

RSK verður að Skattinum

Embætti tollstjóra verður lagt niður og sameinað ríkisskattstjóra verði frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra að lögum.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Embætti tollstjóra verður lagt niður og sameinað ríkisskattstjóra verði frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra að lögum. Það er ekki eina breytingin þar sem lagt er til að stofnunin ríkisskattstjóri fái yfirhalningu og muni frá áramótum bera heitið Skatturinn.

Frumvarpið byggir á vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og opinberra gjalda en sú nefnd var skipuð sumarið 2018. Nefndin lagði meðal annars til að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri hefur annast, yrði færð til ríkisskattstjóra og var lögum breytt til þess horfs á síðasta ári. Nú verður skrefið stigið til fulls og stofnanirnar sameinaðar.

Ekki hefur verið skipað í embætti tollstjóra eftir að Snorri Olsen hætti sem tollstjóri en Snorri tók við sem ríkisskattstjóri þegar Skúli Eggert Þórðarson varð ríkisendurskoðandi. Gamla stofnun Snorra mun nú færast undir Skattinn. Innan Skattsins verður sérstök eining, Tollgæsla Íslands sem tollgæslustjóri mun stýra, sem mun heyra beint undir ríkisskattstjóra.

„Gera má ráð fyrir því að mikil samlegðaráhrif og hagræði hljótist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra. Það á einkum við um rekstur ýmissa notendakerfa, vélbúnaðar, netumsjón og notendaþjónustu. Stærri eining er betur í stakk búin til að tryggja rekstraröryggi sem og öryggi í aðgangi að og meðferð upplýsinga. Samhliða aukast möguleikar á betri samnýtingu upplýsinga og gagna við skatt- og tolleftirlit,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.