Hlutabréf flöktu mikið í verði í viðskiptum dagsins á Bandaríkjamarkaði. Óvissa með framtíð fjárfestingabankans Lehman Brothers og sjóðsins Washington Mutual orsakaði miklar sveiflur á hlutabréfaverði, þá einkum og sér í lagi fjármálafyrirtækja. Olíuverð gaf þó eftir sem blés ýmsum í brjóst, þrátt fyrir að olíufyrirtækin sjálf lækki vitaskuld við slík tíðindi.

Þrátt fyrir mikið flökt og sveiflur stóðu allar hlutabréfavísitölur meira og minna í stað. Dow Jones lækkaði þó eilítið, en S&P500 og Nasdaq bættu við sig örfáum stigum.

Lehman Brothers féll um 16% í viðskiptum dagsins, og hefur nú fallið um alls 80% í þessari viku. Bank of America og Barclays eru taldir líklegastir til að koma bankanum til bjargar eins og málin standa.