Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að svo virðist sem rætast ætli úr umsvifum í ferðaþjónustunni þrátt fyrir dræma byrjun í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. „Það er gaman að heyra að það komu aðeins fleiri ferðamenn til landsins í júlí en í fyrra og gistinætur í júni voru líka fleiri en í fyrra. Þessu hefði maður kannski ekki átt von á í miðju eldgosi.“

Erna, sem hefur verið á hringferð um landið, segir ánægjulegt að sjá hvað mikið er um ferðamenn og tjaldstæði víðast hvar meira og minna full. Hún segir að þótt stöðugt sé unnið að úrbótum í þjónustu á gististöðum um allt land, þá sé ekki um slíkt að ræða við úttektir á tjaldstæðum. Þar sé án efa verk að vinna í að fylgja því eftir að eðlilegri þjónustu sem rukkað er fyrir sé sinnt. Það varðar t.d. þrif salerna og aðra umhirðu.