Íslenska verkfræðistofan RTS hefur tekið að sér að hanna, smíða og setja upp búnað sem stjórnar hreinsivirki í kerskálum álvers Aluar í Argentínu. Gengið var frá samningi um þetta verkefni nýlega, en RTS vinnur það sem undirverktaki norsku verktakanna Alstom.

Þetta er í fyrsta sinn sem RTS gerir heildar samning sem þennan um verkefni erlendis en til þessa hefur fyrirtækið iðulega aðstoðað önnur fyrirtæki við verkefni sem hafa þá verið skráð fyrir viðkomandi verki. Að þessu sinni er verkið skráð á RTS sem sér alfarið um það.

Brynjar Bragason framkvæmdastjóri RTS segir samninginn hafa mikla þýðingu fyrir verkfræðistofuna. ?Það er ljóst að þessi samningur skiptir RTS verulegu máli. Ekki bara vegna þessa tiltekna verkefnis og þeirra tekna sem því fylgja heldur einnig til frambúðar því að við teljum að með þessu verkefni geti opnast ýmsir fleiri möguleikar ytra? segir Brynjar.

Stjórnbúnaðurinn fyrir álverið í Argentínu verður smíðaður hér á landi og fluttur fullbúinn á staðinn þar sem starfsmenn RTS munu annast prófanir og gangsetningu. Gert er ráð fyrir að verkið taki um eitt ár og munu 4-5 starfsmenn RTS koma að vinnslu þess hér á landi. Álver Aluar er á austurströnd Argentínu nokkru sunnar en höfuðborgin Buenos Aires í 100 þúsund manna borg sem heitir Puorto Matryn. Álverið er liðlega 30 ára gamalt og er nú verið að stækka það og auka framleiðslugetuna um 150 þúsund tonn á ári, sem er svipuð stækkun og nú er unnið að hjá Norðuráli í Hvalfirði.

Undanfarin ár hefur RTS verið leiðandi verkfræðistofa hér á landi í ráðgjöf og þjónustu á rafmagnssviði og hefur sérhæft sig í rafbúnaði og smíði stýringa fyrir hreinsivirki í kerskálum álvera. RTS var stofnuð í ársbyrjun 1988 og eru starfsmenn yfir 40, þar af eru fjórir á starfsstöðvum fyrirtækisins á Austurlandi.

RTS hefur ágæta reynslu af því að vinna verkefni í útlöndum því undanfarið hefur fyrirtækið meðal annars sinnt verkefnum í Kína, Barin, Dubai og Egyptalandi. ?Fyrri verkefni hafa yfirleitt verið unnin á viðkomandi stöðum en þá hafa okkar menn dvalið þar allt frá viku upp í 3 mánuði í senn. Öll hafa þessi verkefni gefið okkur mikla reynslu og verið tilbreyting og jafnvel stundum dálítil ævintýri fyrir viðkomandi starfsmenn" segir Brynjar. Hann bætir því við að í þessum verkefnum hafi RTS verið í samstarfi við fjölmörg erlend fyrirtæki í áliðnaðinum. Þar á meðal má nefna: Alcan Alesa í Swiss, Alstom í Noregi, Prosedair í Frakklandi, Sólios í Canada og Möller í Þýskalandi. ?Þessa dagana erum við einnig að senda menn til Dubai þar sem 2 önnur verkefni eru í gangi" segir Brynjar Bragason framkvæmdastjóri RTS að lokum í tilkynningu frá félaginu.