Fulltrúar lífeyrissjóðanna íslensku áttu fyrir skömmu óformlegan fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra.

Viðkomandi ráðuneytisstjórar voru einnig á fundinum.

Á fundinum voru fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða og stærstu lífeyrissjóða landsins, samtals um 10 manns. Þar var staða krónunnar rædd og opnað á það hvort lífeyrissjóðirnir væru tilleiðanlegir til að færa erlendar eignir sínar heim. Engar fjárhæðir voru nefndar en gert er ráð fyrir að fjármununum verði varið til að kaupa ríkisskuldabréf.

Að sögn Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra landssamtakanna, var engin ákvörðun tekin á fundinum enda voru þetta óformlegar viðræður. Fulltrúar sjóðana munu ræða málið áfram í dag og um helgina.

„Menn voru sammála um að þetta væri á borði hvers einstaks sjóðs að taka ákvörðun um slíkt,” sagði Hrafn sem átti ekki von á að lífeyrissjóðirnir tækju sameiginlega afstöðu í málinu heldur væri þetta á borði stjórnar hvers sjóðs fyrir sig.

Samkvæmt upplýsingum frá landsamtökunum eru erlendar eignir lífeyrissjóðanna núna um 500 milljarðar króna og er þá miðað við stöðu krónunnar nú. Lífeyrissjóðirnir hafa eitthvað gert af því að selja eignir sínar erlendis að undanförnu en í júlílok voru eignir þeirra erlendis 493 milljarðar króna.

Lætur nærri að um 30% af eignum sjóðanna séu erlendis, að stærstum hluta í hlutabréfum.

Að því leyti má segja að þessar eignir séu auðseljanlegar þó talsverð lækkun hafi orðið á mörkuðum erlendis. Margir sjóðanna eru með gengisvarnir sem flækja hlutina talsvert. Að því leyti er talið brýnt að hver og einn sjóður tali ákvörðun um hvað hentar best.