Í Bandaríkjunum (BNA) furða menn sig nú á hvað hafi orðið um meintar áætlanir fjármálaráðuneytisins um að lækka veðlánavexti í 4,5% til að lífga við fasteignamarkaðinn. Á vefsíðu Realty Times segir að fjármálaráðherrann Henry Paulson vilji nú ekkert kannast við slíkar áætlanir. Landssamtök fasteignasala (The National Association of Realtors) lögðu það til að sögn Realty Times fyrir nokkrum vikum við fjármálaráðuneytið að tekin yrðu upp vaxtauppkaup. Þannig yrðu vextir af fasteignaveðlánum lækkaðir niður í 4,5% með vaxtauppkaupum .

Samkvæmt frétt Realty Times var hugmyndin að fasteignasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac myndu kaupa lán á 4,5% vöxtum og ríkissjóður myndi greiða mismuninn á þeim og markaðsverði lánanna. Þar er einnig greint frá því að á þriðjudag í síðustu viku hafi kapalsjónvarpsstöðin CNBC sýnt viðtal við Henry Paulson sem hann vildi ekkert kannast við þetta mál. Hann hafi í raun sagt: “Hver, ...ég? Við höfum aldrei kynnt slíkar áætlanir.” Þá hafi hann einnig gefið til kynna að hann væri tregur til að gefa út svo metnaðarfullar og kostnaðarsamar áætlanir án þess að hafa stuðning væntanlegrar ríkistjórnar Obama. Eigi að síður viðurkenndi hann að verið væri að skoða ýmsar leiðir til lækkunar vaxta.

Realty Times segir hins vegar að nýjustu fréttir af þessu máli séu að verið sé að íhuga áætlun tvö. Þar sé gert ráð fyrir að 12 fasteignalánabankar víað um land muni bjóða lækkun vaxta. Sú vaxtalækkun verði  fjármögnuð með útgáfu ríkissjóðs á skuldabréfum.  Haft er eftir fréttastofu Reuters að mikill þrýstingur sé á að þessi leið verði farin af einum forstjóra fyrrnefndra banka, Alfred DelliBove frá New York. Þá sé þessi hugmynd líka í skoðun hjá Federal Housing Finance Agency.