Hugmyndir eru uppi um að reisa þrjár 60 metra háar íbúðabyggingar á svokölluðum Sjallareit á Akureyri. Þetta yrðu jafnframt hæstu íbúðarhús landsins með samtals um 150-200 íbúðir. Zeppelin arkitektar í Garðabæ unnu 10 ólíkar tillögur á Sjallareitnum, sem kynntar voru á fundi með umhverfisráði en þar kom fram einróma stuðningur við byggingu háhýsanna á umræddu svæði.

Einn þeirra aðila sem koma að málinu er byggingafélagið SS Byggir. Hugmyndin væri að þrjár neðstu hæðir hússins yrðu 3.200 fermetrar hver hæð, með bílakjallara, verslunarhúsnæði þar fyrir ofan og bílastæðahúsi á þriðju hæðinni. Ofan á þessar þrjár hæðir yrðu svo byggðir þrír 17 hæða turnar með íbúðum og garði á milli ofan á bílageymslu- og verslunarhúsnæðinu og myndi nýtast íbúum hússins. Ef allar áætlanir ganga eftir yrði hægt að hefja byggingaframkvæmdir eftir um eitt ár.

Ekki eru þetta einu háhýsin sem eru í umræðunni á Akureyri þessa dagana heldur vilja byggingarfrömuðir reisa risablokk við Baldurshaga, neðan lögreglustöðarinnar. Hugmyndirnar um háhýsabæinn Akureyri hefur fengið misjafnar undirtektir en vert er að minna á opið íbúaþing sem haldið verður í Höllinni á laugardag undir merkjum Akureyri í öndvegi þar sem bæjarbúar geta komið sínum hugmyndum um þróun miðbæjarins á framfæri.