Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er nú unnið hörðum höndum við að endurskipuleggja rekstrargrundvöll Árvakurs, útgáfufélag Morgunblaðsins.

Hefur meðal annars verið rætt um að aðskilja eignarhald á blaðinu og prentsmiðju sem hefur verið rekin undir nafni Landsprents síðasta árið.

Erfitt hefur verið að fá heildstæðar upplýsingar um skuldastöðu félagsins en heimildir Viðskiptablaðsins segja að þunglega gangi að fá fjárfesta að borðinu. Með því að aðskilja eignarhald á prentsmiðju og blaði telja menn að það gæti verið auðveldara.

Komið hefur fram að núverandi stjónendur vinna að því að endurskipuleggja rekstur og fjárhag félagsins og hefur verið rætt um að núverandi hlutafé verði fært niður í núll.

Til að af björgun blaðsins geti orðið þarf að fá inn nýja hluthafa um leið og bankinn breytir skuldum í hlutafé og færir þær niður.

Eftir því sem komist verður næst er talsverður pólitík komin í málið og menn leggja þunga áherslu á að Morgunblaðið komi áfram út. Hafa ýmsir þungaviktarmenn í Sjálfstæðisflokknum verið nefndir til sögunnar þar.

Prentsmiðja blaðsins var tekin í notkun 2003 og hefur sú fjárfesting reynst félaginu erfið. Gert var ráð fyrir að flytja prentun Fréttablaðsins þangað um áramót og hafði blaðið sagt upp sínum samningum við Ísafoldarprentsmiðju.