Nefnd um möguleika alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi hefur skilað skýrslu til forsætisráðherra. Gert er ráð fyrir að skýrslan verði kynnt innan skamms.

Að sögn formanns nefndarinnar, Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings banka, leggur nefndin mikla áherslu á að mörkuð verði sú stefna að laða til landsins alþjóðlega fjármálastarfsemi. Því þurfi að miða aðgerðir og ákvarðanir við það að ýta undir þá þjónustu sem líkleg sé til þess að auðga samfélagið og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.

Að sögn Sigurðar fór nefndin þá leið að reifa allmargar hugmyndir, sem hún telur að stuðlað geti að verulegri aukningu í alþjóðlegri fjármálaþjónustu á Íslandi, kæmu þær til framkvæmda á næstu misserum.

Sigurður sagði að margvíslegar hugmyndir hefðu komið fram í starfi nefndarinnar. Meðal annars að gera Ísland að höfn fyrir höfuðstöðvar alþjóðlegra félaga, að leggja sérstaka áherslu á alþjóðlega eignastýringu (starfsemi lífeyrissjóða og fleira), um breytingu á skattlagningu fjármagnstekna og um skattlagningu erlendra sérfræðinga.

"Þarna eru hugmyndir sem snúa að skattamálum og gætu haft gríðarleg áhrif en eru um leið tiltölulega áhættulitlar fyrir ríkissjóð vegna þess hve fyrirtækjaskattar eru lítið hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs. -- En ef þetta misheppnaðist og við þyrftum að bakka, þá er það ekki dýrt miðað við þann ávinning sem við gætum haft af slíkum breytingum," sagði Sigurður.

Nefndin varpar fram þeirri hugmynd að taka upp stiglækkandi tekjuskatt fyrirtækja. Að sögn Sigurðar yrði það gert þannig að almennt skatthlutfall fyrirtækja yrði áfram 18% en skatthlutfall lækkaði hjá fyrirtækjum á þeim hluta skattskylds hagnaðar sem væri umfram ákveðið mark á viðkomandi skattári.

Tilgangurinn með slíkum aðgerðum væri að laða til landsins félög sem hafa háar skattskyldar tekjur, auk þess sem aukinn hvati væri hjá íslenskum félögum til að staðsetja hagnaðareiningar samstæðna sinna hér á landi.

Hugmyndir um alþjóðlega lífeyrismiðstöð

Sigurður sagði einnig að nefndin hefði skoðað ýmsa möguleika til þess að laða hingað til lands ýmsa sjóði og fjárfestingafélög. Því væru lagðar fram hugmyndir um alþjóðlega lífeyrismiðstöð sem uppfylli íslensk lög og reglur og sömuleiðis um alþjóðlega sjálfseignasjóði sem gjarnan eru notaðir í tengslum við einkabankaþjónustu.

Sigurður sagði einnig að nefndin hefði rætt hugmyndir þess efnis að reglur um skattlagningu fjármagnstekna félaga verði gerðar samkeppnishæfar til að mæta erlendri samkeppni og örva alþjóðlega fjármálastarfsemi hér á landi. Sagði hann að nefndin hefði talið koma til greina að veita allt að 90% frádrátt á móti vaxtatekjum og lagfæra reglur um staðgreiðslu og afdráttarskatta á greiðslum milli landa. Sömuleiðis voru ræddar hugmyndir um breytingar á einstaka ákvæðum tekjuskattslaga sem fælu í sér takmörkun á skattlagningu á arði og afnám takmarkaðrar skattlagningar erlendra aðila hér á landi vegna tekna í formi þóknana og söluhagnaðar hlutabréfa.

Sigurður sagði að einnig hefðu komið fram hugmyndir um að laða til landsins erlenda sérfræðinga til tímabundinna starfa, m.a. með aukinni þjónustu, betri aðbúnaði og hóflegri skattlagningu. -- En er líklegt að menn vilji samþykkja slíkar hugmyndir þar sem menn eru enn að beita skattkerfinu sem tekjujöfnunarkerfi?

"Það er enginn vafi að ef það tekst að auka umfang fjármálastarfsemi hér, bankastarfsemi eða annars konar fjármálastarfsemi, þá yrði það til mikilla til hagsbóta fyrir almenning og þjóðarbúið í heild. Það er enginn sem efast um það. Hins vegar er þessi atvinnustarfsemi þannig að hún eykur ekki endilega jöfnuð. Sumir hagnast meira en aðrir. Ef menn þola það ekki þá er fjármálastarfsemi ekki það sem menn ættu að reyna að laða til landsins. Þá ættu menn frekar að vera hamingjusamir með að laða til landsins láglaunastörf þar sem allir eru jafn lágt launaðir. Þetta eru valkostirnir," sagði Sigurður.