Í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu (99,4) verður rætt við Ásgeir Margeirsson, aðstoðarforstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, um nýgerða samninga í Kína. Einnig verður rætt við Ingólf Bender, forstöðumann Greiningar Íslandsbanka, um nýja spá þeirra um þróun gengis íslensku krónunnar.

Nýgert samkomulag Enex-Kína ehf og borgarinnar Xianyang í Kína er um hitaveitu í ný hverfi í borginni. Hitaveitan í Reykjavík er stærsta jarðhitaveita í heimi og mikil þekking hefur skapast hér á landi á þeim sjötíu árum sem liðin eru frá því að hún var stofnuð. Ef Reykjavík væri hituð með kolum þyrfti 360 þúsund tonn á hverju ári til þeirrar hitunar með tilheyrandi mengun og kostnaði. Það er því mjög mikilvægt að kynna fyrir Kínverjum þessa leið til húshitunar því mjög víða í Kína er heitt vatn að finna í jörðu og aðstæður ákjósanlegar til húshitunar með jarðhita í stað kola.

Mikilvægt er að með þessu samkomulagi er stefnt að útflutningi á hugviti og verkfræðilegri þekkingu Íslendinga á þessu sviði, auk þess sem íslensk fjármálaþekking er nýtt til fjármögnunar verkefnisins, en Íslandsbanki er meðeigandi Or í ENEX-Kína.

Þá má vekja athygli á að samstarfsaðila Enex-Kína í þessu verkefni eru mjög öflugir en það eru fyrirtækið CGC dótturfélag Sinotec olíufélagsins og Xianyang Urbane Construction & Investment Co. fjárfestingafyrirtæki í eigu Xianyang borgar.

Viðskiptaþátturinn er á milli 16 og 17 á daginn og endurfluttur milli kl. 19 og 20 á kvöldin og kl. 01 og 02 á kvöldin.