Rússneska rúblan tók heldur betur dýfu við opnun markaða og hefur ekki lækkað jafnmikið á einum degi frá árinu 1998. Financial Times greinir frá þessu.

Gengi rússneskrar rúblu gagnvart bandaríkjadollar snarlækkaði nú í morgun og stóð dollarinn í 53,54 rúblum. Hafði gengið þá fallið um 8,24% frá lokun markaða á föstudag en það sem af er ári hefur gengið fallið um nær 40%.

Ástæðu gengislækkunarinnar má að hluta rekja til lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu, en í dag fór tunnan af Brent Norðursjávarolíu lægst í 67,53 dollara sem er það lægsta í rúm fimm ár. Verðið hefur þó aðeins tekið við sér síðan og kostar tunnan nú 69,65 dollara. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um nær fjórðung síðan í sumar.