Rússneska rúblan styrktist um 8% í viðskiptum dagsins í dag og er gengi hennar gagnvart Bandaríkjadal nú um 54, en var 63 fyrir um viku síðan.

Styrkingin kemur nokkuð á óvart því í dag sagði fyrrverandi fjármálaráðherra Rússlands, Alexei Kudrin, að landið væri að sigla inn í „alvöru kreppu“ og rússneski seðlabankinn þurfti að lána Trust bankanum 30 milljarða rúbla til að forða bankanum frá gjaldþroti.

Samkvæmt frétt BBC gerir aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Igor Shuvalov, ráð fyrir því að rúblan haldi áfram að styrkjast og að rússneska ríkisstjórnin væri á móti gjaldeyrishöftum.

Fallandi olíuverð hefur haft mikið um ástandið í Rússlandi að segja. Kudrin sagði að jafnvel þótt olíuverð myndi hækka úr 60 dölum á fatið í 80 dali myndi rússneska hagkerfið dragast saman um 2% á næsta ári. Haldist olíuverð óbreytt myndi hagkerfið dragast saman um ein 4% árið 2015. Þessi spá hans er ekki í samræmi við spár ráðuneytis efnahagsþróunarmála, sem gerir ráð fyrir 0,8% samdrætti á næsta ári.