Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi fór í fyrsta sinn yfir 2.400 stiga múrinn í dag með 1,45% hækkun upp í 2.429 stig. Heildarviðskiptin með hlutabréf í kauphöllinni námu í dag 4,6 milljörðum króna.

Mest viðskipti voru með bréf flugfélagsins sem komin eru 71% yfir útboðsgengi í september. Festi hækkaði mest, eða um 2,45%, upp í 167,5 krónur í 337 milljóna króna viðskiptum.

Gengi bréfa Icelandair hækkuðu um 1,18% í mestu viðskiptunum með bréf í einu félagi í kauphöllinni í dag, eða fyrir 972,4 milljónir króna. Þar með nam lokagengi bréfa flugfélagsins 1,71 krónu, sem er 71% yfir 1 krónu útboðsgengi bréfa félagsins um miðjan september síðastliðinn. Hækkun bréfa félagsins síðasta mánuðinn hefur numið 35,71%, en ef horft er ár aftur í tímann nemur lækkun bréfa félagsins 77,35%.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 823,5 milljónir króna, og hækkuðu þau í þeim um 2,20%, upp í 742 krónur. Bréf Eimskipafélagsins hækkuðu nokkru meira, eða um 2,23%, upp í 229 krónur, í 134 milljóna króna viðskiptum.

Mest lækkun var svo á bréfum Sýnar, eða um 1,03%, niður í 38,40 krónur, í 31 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á bréfum Eikar fasteignafélags, eða um 0,88%, niður í 8,97 krónur, í 66 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta lækkunin var svo á bréfum TM, eða um 0,67%, niður í 48,48 krónur í 8 milljóna króna viðskiptum.

Íslenska krónan veiktist á ný í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum utan sænsku krónunnar sem veiktist um 0,57% gagnvart þeirri íslensku og fæst nú á 14,866 krónur. Breska pundið styrktist hins vegar um 0,53%, upp í 168,28 krónur, Bandaríkjadalur styrktist um 0,49%, upp í 125,97 krónur, og evran styrktist um 0,26%, upp í 152,59 krónur.