„Þetta er einfaldlega byggt á einhverjum misskilningi. Þetta er eitthvað frá fyrri tíð sem tengist Kaupþingi og menn hafa einhvern veginn tengt það við okkur, sem á engan veginn við í þessu samhengi,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, um lista sem danskir fjölmiðlar birtu í gær yfir stórfyrirtæki í skattaskjóli í Lúxemborg.

Á listanum er að finna nöfn 343 stórfyrirtækja sem sögð eru hafa skráð starfsemi í Lúxemborg til þess að komast hjá skattgreiðslum. Á listanum er að finna „Kaupthing bank“, og er sagt í sviga þar fyrir aftan að fyrirtækið heiti nú Arion banki.

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins um málið segir að með samningum sem þessum verði önnur lönd af skatttekjum en Lúxemborg fái hins vegar eitthvað í sinn hlut á meðan fyrirtæki haldi eftir háum fjárhæðum. Hægt er að sjá listann á vefsíðu Danska ríkisútvarpsins.