Arion banki rukkar viðskiptavini sem sækja um yfirdrátt um 1.200 krónur í umsýslugjald. Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins er gjaldið tilkomið í kjölfar aukinnar umsýslu vegna nýrra laga um neytendalán, sem tóku gildi 1. nóvember síðastliðinn.

Í fréttum Rúv segir að sama dag tók ný verðskrá gildi hjá Arion banka og kom þá inn liður sem kallaður er „Skjalagerðargjald samnings um yfirdráttarheimild“.

Samkvæmt nýju neytendalánalögunum eiga lánveitendur að veita neytendum ítarlegri upplýsingar en áður, meðal annars um lánskostnað, til að auðvelda neytendum samanburð á lánskjörum. Þá eru gerðar meiri kröfur um að lánshæfi neytenda verið metið fyrir lántöku. Lögin ná yfir íbúða- og bílalán, yfirdráttarheimildir, raðgreiðslusamninga og smálán.

Rúv leitaði til annarra banka, en fékk þau svör að verðskrá hefði ekki enn breyst vegna laganna eins og í tilviki Arion banka.