Landeigendur í Reykjahlíð ætla að rukka ferðamenn sem koma í sumar til að skoða Dettifoss, Námaskarð og Leirhnjúka. Gjaldið verður fimm evrur á haus eða í kringum 800 krónur fyrir að skoða hvern af þessum stöðum náttúruperlurnar. Veita á afslátt fyrir þá sem ætla að skoða alla staðina þrjá. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að um 300 þúsund ferðamenn skoðuðu Dettifoss, Námaskarð og Leirhnjúka í fyrra. Tekjur landeigenda gætu samkvæmt því numið í kringum 240 milljónum króna á ári.

Til stendur að reisa þrjár þjónustumiðstöðvar á landinu en áætlaður kostnaður við framkvæmdina nemur á bilinu 4-600 milljónum króna.

Ólafur H. Jónsson, formaður Landeigendafélags Reykjahlíðar, segir í samtali við Fréttablaðið landeigendur ekki hafa þolinmæði til að bíða eftir því að náttúrupassi líti dagsins ljós. Svæðið liggi undir skemmdum og byggja þurfi upp aðstöðu sem fyrst.