Eigendur Teatreneu klúbbsins í Barcelona, sem sýnir uppistand, notast við nýstárlega tækni til þess að rukka gesti staðarins. Þannig hafa þeir brugðið á það ráð að rukka gesti fyrir hvern hlátur og beina þeir þannig myndavélum að hverjum og einum gesti til þess að fylgjast með viðbrögðunum.

Hver hlátur er rukkaður á 0,3 evrur sem jafngildir um 45 íslenskum krónum. Þeir sem fá hláturskast á sýningunum þurfa þó ekki að hafa áhyggjur, því þeir þurfa aldrei að greiða meira en 24 evrur fyrir sýninguna, eða um 3.700 krónur.

Eigendur staðarins komu þessu verkefni af stað til þess að berjast gegn fækkun áhorfenda og hefur það borið nokkurn árangur hjá fyrirtækinu. Fleiri klúbbar víðs vegar um Spán hafa tekið eftir þessu og eru nú farnir að taka upp kerfið.