Eigendur Reykjahlíðar í Mývatnssveit ætla að hefja gjaldtöku á helstu ferðamannastöðum á landareign sinni á næsta ári. Ólafur H. Jónsson, formaður félags landeigenda Reykjahlíðar, segir í samtali við RÚV, þá ekki eiga annarra kosta völ. Mikið álag sé á fjölsótta staði á eigninni og öryggi ferðamanna sé í hættu að óbreyttu. Hann bendir á að eitthvað þurfi að gera til að vernda svæðin og dugi opinber fjárstuðningur ekki til að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir. Gjaldtaka sé því eina leiðin.

Á landareigninni eru sumir af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins, þau mest sóttu eru svæði vestan Dettifoss, hverir austan Námafjalls og Leirhnjúkssvæðið.

Stefnt er að því að byggja upp salernisaðstöðu á þessum stöðum, bílastæði fyrir rútur, þjónustuhús og fleira, að því er fram kom í fréttum RÚV.