Malcolm Walker fjárfestir og eigandi Iceland verslanakeðjunnar, hefur fengið 2,5 milljóna punda reikning frá breska skattinum, andvirði 470 milljóna króna, vegna ferðar til Disneyworld í Flórída árið 2009.

Um átta hundrað stjórnendur og starfsmenn Iceland keðjunnar voru sendir í fimm daga „vinnuferð“ til Flórída og heimsóttu þeir m.a. Disneyworld, Universal kvikmyndaverið og Kennedy geimskotssvæðið. Ferðin kostaði alls fjórar milljónir punda, eða um 5.000 pund á hvern starfsmann, og var kostnaðurinn færður í bækurnar sem viðskiptakostnaður. Skatturinn vill hins vegar meina að um skattskyld hlunnindi hafi verið að ræða.

Í frétt Daily Mail er haft eftir Walker, sem neitar að greiða skattinum það sem hann vill fá, að ferðin hafi verið fjárfesting í starfsfólki. Disney sé í fyrsta flokki í þjónustu við viðskiptavini og að markmiðið hafi verið að fá starfsfólk Iceland til að læra af Disney.

Hann viðurkennir að ferðin hafi verið skemmtileg en það sé ástæðulaust að biðjast afsökunar á því.