Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur á seinustu misserum haft til skoðunar hvernig sé hægt að standa undir viðhaldi og ýmsum kostnaði á ferðamannastöðum á landinu. Í því skyni þurfi að innheimta gjald og hefur hún nú lagt til að innheimt verði fyrir sérstakan náttúrupassa, sem kosti 1.500 krónur og gildi í þrjú ár.

„Það sem að ég vil fyrst segja um þetta mál er að þetta er ekki eitthvað sem datt af himnum ofan hingað á borð til mín og ég „fattaði upp á“, eins og krakkarnir segja. Þetta er leið sem er búin að vera til skoðunar um nokkurra ára skeið. Samtök ferðaþjónustu hafa til dæmis lengi verið þeirrar skoðunar að heildstætt gjald og kerfi væri ákjósanlegra heldur en að rukka á einstökum stöðum,“ segir Ragnheiður. Hún er hugsi yfir því að þeir sem hafi þótt fyrirkomulagið ákjósanlegt og tekið þátt í að móta hugmyndina skuli nú afneita og lýsa sig andsnúna því.

„Það eru mörg sjónarmið sem þarf að taka til athugunar hér og það er engin ein leið gallalaus, en þá þurfum við að horfa til markmiðanna sem við erum að reyna að ná. Við vinnum út frá þeirri hugmyndafræði að þeir borga sem njóta. Við viljum reyna að koma í veg fyrir að það séu hlið og girðingar og biðraðir við hvern einasta stað. Það er samdóma álit flestra þeirra sem tjá sig um þetta að það er ekki upplifunin sem við erum að sækjast eftir,“ segir Ragnheiður Elín.

Fólk ekki tæklað á Ægisíðunni

„Á sama tíma viljum við, ríki og sveitarfélög, taka ábyrgð á okkar svæðum. Þannig er ekki verið að takmarka rétt einkaaðila þó að það séu ákveðnir hvatar fyrir þá til að taka þátt,“ segir Ragnheiður. Hún furðar sig jafnframt á hörku sem hafi birst í umræðu um náttúrupassann. „Nei, það er ekki verið að fara að rukka fólk fyrir að fara í berjamó eða að skriðtækla fólk á Ægisíðunni eða úti í Gróttu.“

Ragnheiður Elín er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .