Bandaríski tóbaksrisinn Philip Morris er sagður vera langt kominn í viðræðum um kaup á Swedish Match sem framleiðir og selur kveikjara og tóbaksvörur. Fjölmörg vörumerki heyra undir Swedish Match, og má þar meðal annars nefna ZYN sem eru nikótínpúðar og General sem er laust munntóbak.

Búast má við því að viðræðurnar muni skila einhverri niðurstöðu í þessari viku, en bæði félög hafa staðfest að viðræðurnar eigi sér stað.

Swedish Match er metið á um 12 milljarða dollara, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 25% í gær eftir að fréttir bárust um yfirvofandi yfirtöku. Í umfjöllun Wall Street Journal um málið kemur fram að endanlegt söluverð yrði að öllum líkindum hærra, og gæti verið 15 milljarðar dollara eða hærra. Philip Morris er metið á um 155 milljarða dollara.

Bandaríkin eru næst stærsti markaður Swedish Match á eftir Skandinavíu, en sala félagsins í Bandaríkjunum jókst um rúmlega 10% í fyrra. Sala á nikótínpúðum undir merkjum ZYN var mest vaxandi varan í Bandaríkjunum.

Philip Morris er eitt af stærstu tóbaksfyrirtækjum heims og selur Marlboro sígarettur utan Bandaríkjanna ásamt Chesterfield, L&M, Lark og Philip Morris. Undanfarin misseri hefur fyrirtækið verið að færa sig yfir í staðkvæmdavörur sem eru skaðminni en sígarettur, eins og nikótínpúðar og munntóbak.

Árið 2019 heimilaði Bandaríska matar- og lyfjaeftirlitið Swedish Match að markaðssetja General munntóbaksvörurnar sem ólíklegri vöru til að valda munnkrabbameini, hjartasjúkdómum og lungnakrabbameini en sígarettum.

Sala á sígarettum hefur dregist saman í Bandaríkjunum undanfarin ár sem hefur ýtt tóbaksframleiðendum í að auka tekjurnar með öðrum hætti, svo sem sölu á rafsígarettum og öðrum vörum sem fyrirtækin segja að séu skaðminni. Sala á rafsígarettum hefur aukist um 11% í Bandaríkjunum síðastliðið árið á meðan sala á munntóbaksvörum ásamt nikótínpúðum hefur aukist enn meira. Sala á nikótínpúðum Swedish Match í Bandaríkjunum jókst til að mynda um 52% á milli 2020 og 2021 og markaðshlutdeild fyrirtækisins í Bandaríkjunum var 64% í fyrra.