Tæpur helmingur landsmanna eða 48,2% er andvígur því að gerast aðili að Evrópusambandinu (ESA) og aðeins rétt rúmur fjórðungur, um 26,2% landsmanna, styðja það. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem Fréttablaðið og Stöð 2 gerðu fyrir helgi.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að andstaðan við inngöngu í ESB er langmest á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar eru 75,6% stuðningsmanna andvígir inngöngu í ESB en 9,9% styðja hana. Ekki var jafn mikil andstaða við inngönguna í ESB á meðal kjósenda Framsóknarflokksins. Þar sögðu 61,5% stuðningsmanna á móti inngöngu í bandalagið en 19,2% studdu það. Þá voru 46,7% stuðningsmanna VG á móti aðild Íslands að ESB en 20% fylgjandi því.

Málið leit öðruvísi við í hinum flokkunum þremur á þingi. Þar studdu 58,2% stuðningsmanna Samfylkingarinnar aðild Íslands að ESB, 47,8% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar og 46,7% Pírata.

Í ágúst í fyrra greindi ríkisstjórnin frá því að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðum stjórnvalda við ESB og voru samninganefndir leystar frá störfum.

Fram kemur um könnunina í Fréttablaðinu að hringt var í 1.322 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 29. og 30. janúar. Svarhlutfallið var 61%. Spurt var: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið?