Alls telja 27,4% aðspurðra að ekkert hámark ætti að vera á verðtryggðum húsnæðislánum og 22,8% telja að hámarkið ætti að vera 26 milljónir eða hærra, samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar Capacent-Gallup fyrir Íbúðalánasjóð í liðnum mánuð. Alls töldu 17,5% að hámarks lánsfjárhæð ætti að vera á milli 21-25 milljónir króna og 23,6% að hámarkið ætti að vera 16-20 milljónir. 8,6% töldu hins vegar að hámarkið ætti að vera 8,6% eða lægra.

Þegar spurt var um hversu hátt hlutfall af kaupverði verðtryggð húsnæðislán eiga að vera að hámarki, töldu tæp 47% að það hlutfall eigi að vera um 80-85%, alls 29% að það eigi að vera 90% og 7,7% að það eigi að vera 95-100% Hins vegar töldu tæp 10% að hlutfallið eigi að vera 70-75% og 6,8% að hlutfallið eigi að vera 65% eða lægra. Það vekur athygli að fjöldi þeirra sem fylgja því að lánshlutfallið sé 80-85% hefur aukist mjög frá sambærilegri könnun í janúar 2006, en þá voru rúmlega 36% því fylgjandi, eða rúmum tíu prósentustigum færri en nú. Þeim fækkar líka sem vilja að hlutfallið sé 95-100% en þó öllu minna en í fyrrnefnda flokknum, eða úr tæpum 11% í 7,7% eins og fyrr segir.

Fáir hyggja á flutning

Í könnuninni var líka spurt um hversu líklegt væri að viðkomandi skipti um húnsæði á næstu tólf mánuðum. Töldu 63,6% að það væri mjög ólíklegt og 14,5% að það væri frekar ólíklegt. Hins vegar töldu 11,7% að það væri mjög líklegt og 7,7% að það væri frekar líklegt. Ef þessi svör eru borin saman við fyrri kannanir koma fram litlar breytingar á milli ára, þeir sem töldu mjög ólíklegt að þeir hygðu á búferlaflutninga innan tólf mánaða voru flestir haustið 2002, eða tæp 70% en í janúar 2005 og í janúar 2006 var þetta hlutfall rétt rúm 60%