Í desember 2012 voru birtar niðurstöður rannsóknar um nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum á árunum 2001-2011 í ljósi þess að nauðungarsölur voru þar hlutfallslega mun algengari en annars staðar á landinu. Í framhaldi af þeirri könnun var ákveðið að afla ítarlegri upplýsinga um þá sem misstu húsnæði sitt, með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur og liggja þær niðurstöður nú fyrir. Áberandi er að hátt hlutfall skuldara nýtti sér ekki opinber úrræði sem í boði voru og hefðu getað komið þeim að gagni vegna skorts á upplýsingum um þau. Þetta kemur fram á heimasíðu velferðarráðuneytisins .

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir niðurstöður könnunarinnar undirstrika hve mikilvægt sé að skapa húsnæðismarkað með fjölbreyttum valkostum sem henta ólíkum aðstæðum fólks og efnahag: „Við getum ekki tryggt öllum öruggt húsnæði nema með því að gera leiguhúsnæði og búseturétt að raunhæfum kosti. Niðurstöðurnar sýna líka glöggt hve mikið er í húfi til að búa börnum, öllum börnum öruggt heimili.“